Það er skemmtilegt og áhugavert að fá að kynnast barninu sínu á meðgöngunni.

Aðeins þú getur upplifað barnið þitt í móðurkviði eins og til dæmis að finna fyrir hreyfingum þess.

Við trúum því að móðir þekki barnið sitt best

HVERNIG HREYFIR BARNIÐ SIG?

Frá 18-24 vikum finna konur sífellt meira fyrir hreyfingum barnsins og þær verða kröftugri upp að 32 vikum, en eftir það haldast þær svipaðar út meðgönguna.

Hreyfingar barnsins eru besta merkið um að barninu þínu líði vel. Hvert barn er einstakt og því er mikilvægt fyrir þig að þekkja hvað er eðlilegt fyrir barnið þitt þegar kemur að tíðni og mynstri hreyfinga. Barnið þitt á að halda áfram að hreyfa sig reglulega út meðgönguna.

Konur heyra stundum að hreyfingar barna minnki í lok meðgöngu en það er EKKI tilfellið.

Hins vegar breytist skynjun fósturhreyfinga þegar dregur nær settum degi. Barnið færist neðar í grindina og skorðar sig sem veldur því að tilfinningin fyrir hreyfingum verður önnur. Barnið tekur meira pláss með aukinni stærð og getur því ekki hreyft útlimi eins mikið.

Eftir því sem fæðingin nálgast eykst vöðvatónus í leginu sem leiðir til þess að hreyfingar finnast ekki eins vel.

FLEIRI UPPLÝSINGAR

Spörkin telja

Það er skemmtilegt og áhugavert að fá að kynnast barninu sínu á meðgöngunni. Aðeins þú getur upplifað barnið þitt í móðurkviði eins og til dæmis að finna fyrir hreyfingum þess. Við trúum því að móðir þekki barnið sitt best.
gleym mér ei logo

Um Spörkin telja

“Spörkin telja” er fræðsluefni um minnkaðar fósturhreyfingar sem Gleym-mér-ei styrktarfélag stóð fyrir í samstarfi við Ljósmæðrafélag Íslands, Heilsugæsluna og Landspítalann með stuðningi frá Heilbrigðisráðuneytinu og Landlæknisembættinu.

Gleym mér ei er styrktarfélag sem hefur þann tilgang að halda utan um styrktarsjóð sem notaður er til að styrkja ýmis málefni í tengslum við missi barns á meðgöngu og í eða eftir fæðingu.